Zetafall

Frí

28. júní 2021

Í dag er fyrsti dagurinn aftur í vinnunni eftir rúmra tveggja vikna frí. Ég fór í frí af því ég var orðinn svo stressaður að ég gat ekki hugsað mér að vinna einn dag í viðbót. Áður en ég færi að tala við lækni um að koma mér í sjúkraleyfi ákvað ég að taka einhverja af dögunum sem ég átti inni.

Í tvær vikur gerði ég ekki mikið svo sem. Ég talaði við sálfræðing, fór að hlaupa, telfdi, grillaði og eldaði, og lék við krakkana. Það var allt mjög fínt. En allt sem gerði mig svona stressaðan til að byrja með er ennþá til staðar; ég þarf ennþá að vinna að heiman, með krakkana þar líka þrjá daga í viku, í vinnu sem mér leiðist þegar best gengur.

Við þurfum að sjá hvernig þetta gengur. Ég ætla að vera duglegri að fara að hlaupa áður en ég fer að vinna, og harðari á að fara bara eitthvað annað að vinna. Bakinu mínu finnst minna skemmtilegt að vinna á bókasafninu en fyrir 20 árum, en ég get örugglega dílað við það þangað til vinnan byrjar að hleypa inn á einhverjar skrifstofur aftur í ágúst.

Ég veit samt ekki almennilega af hverju ég fer ekki bara í sjúkrafrí. Auðvaldið á ekkert inni hjá mér. Að fara í leyfi eyðileggur örugglega feril minn hjá fyrirtækinu í einhver ár, en ég hef engan áhuga að vinna hjá því í einhver ár hvort eð er. Á maður að fara í leyfi ef maður er nokkuð viss um að koma aldrei aftur úr því?