Zetafall

Út vil ek

1. júlí 2021

Nú er ég 36 ára karlmaður og mig langar að fara á bar þegar krakkarnir eru sofnaðir og spjalla við einhvern sem er ekki í fjölskyldunni minni. Í ljós kemur að þetta er hægara sagt en gert á mínum aldri.

Fyrir tíu árum var þetta ekkert mál. Ég gerði þetta marga daga í viku. Það var kannski ekki góð hugmynd að gera þetta marga daga í viku, en ég var ungur og bar ekki ábyrgð á neinum og átti fullt af pening til að eyða í vitleysu. Í dag er þetta bara erfitt, ef eitthvað er að marka síðustu daga af tilraunum til að finna einhvern.

Það hjálpar ekki að ég gerði þetta sjálfum mér erfitt fyrir með því að flytja frá Íslandi fyrir 14 árum og koma aldrei aftur. Ef ég hefði orðið eftir heima væri þetta kannski ekki mikið auðveldara, þar sem flestir vinir mínir fluttu líka í burtu eftir hrunið, en einhverjir eru komnir heim aftur, og ég hefði líka örugglega eignast nýja og betri vini, myndarlegri en þeir sem ég átti. Og þá yrði ég nú hamingjusamur.