Zetafall

1. júlí 2021

Nú er ég 36 ára karlmaður og mig langar að fara á bar þegar krakkarnir eru sofnaðir og spjalla við einhvern sem er ekki í fjölskyldunni minni. Í ljós kemur að þetta er hægara sagt en gert á mínum aldri.

Fyrir tíu árum var þetta ekkert mál. Ég gerði þetta marga daga í viku. Það var kannski ekki góð hugmynd að gera þetta marga daga í viku, en ég var ungur og bar ekki ábyrgð á neinum og átti fullt af pening til að eyða í vitleysu. Í dag er þetta bara erfitt, ef eitthvað er að marka síðustu daga af tilraunum til að finna einhvern.

Það hjálpar ekki að ég gerði þetta sjálfum mér erfitt fyrir með því að flytja frá Íslandi fyrir 14 árum og koma aldrei aftur. Ef ég hefði orðið eftir heima væri þetta kannski ekki mikið auðveldara, þar sem flestir vinir mínir fluttu líka í burtu eftir hrunið, en einhverjir eru komnir heim aftur, og ég hefði líka örugglega eignast nýja og betri vini, myndarlegri en þeir sem ég átti. Og þá yrði ég nú hamingjusamur.

30. júní 2021

Ég held að gömlu guðirnir hafi ekki bara verið til, heldur séu enn við góða heilsu og völd. Það er útskýring mín á hvítum karlmönnum sem vinna í tech.

Svona margar manneskjur sem hafa hundrað prósent rétt fyrir sér um allt sem þær segja, en geta ekki fyrir sitt litla líf sannfært annað fólk um það, er aðeins hægt að útskýra með fjölda-Kassöndrubölvunum.

Nú eða að nördar sem líta niður á hluti sem þeir telja ekki vísindi – eins og bókmenntir, félagsfræði og almenna kurteisi – séu upp til hópa leiðinlegt fólk að tala við.

Ómögulegt er að gera upp á milli þessa möguleika í dag. Sagan mun leiða rétta svarið í ljós.

29. júní 2021

Hafandi leyst COVID-gátuna á einfaldan og skynsamlegan hátt hafa forritararnir í vinnunni safnast saman í Slack-rás til að útskýra einfaldar leiðir til að við getum öll unnið að heiman hamingjusöm. Það eina sem þarf nú er að stjórnendur hlusti á rödd skynseminnar.

Á meðan er ég við að púlla The Shining af tilhugsuninni um að vinna eina sekúndu í viðbót að heiman.

Ég ætti sennilega að líta á þessa Slack-rás eins og Twitter, Facebook eða aðra samskiptamiðla; hættulega geðheilsu minni.

28. júní 2021

Í dag er fyrsti dagurinn aftur í vinnunni eftir rúmra tveggja vikna frí. Ég fór í frí af því ég var orðinn svo stressaður að ég gat ekki hugsað mér að vinna einn dag í viðbót. Áður en ég færi að tala við lækni um að koma mér í sjúkraleyfi ákvað ég að taka einhverja af dögunum sem ég átti inni.

Í tvær vikur gerði ég ekki mikið svo sem. Ég talaði við sálfræðing, fór að hlaupa, telfdi, grillaði og eldaði, og lék við krakkana. Það var allt mjög fínt. En allt sem gerði mig svona stressaðan til að byrja með er ennþá til staðar; ég þarf ennþá að vinna að heiman, með krakkana þar líka þrjá daga í viku, í vinnu sem mér leiðist þegar best gengur.

Við þurfum að sjá hvernig þetta gengur. Ég ætla að vera duglegri að fara að hlaupa áður en ég fer að vinna, og harðari á að fara bara eitthvað annað að vinna. Bakinu mínu finnst minna skemmtilegt að vinna á bókasafninu en fyrir 20 árum, en ég get örugglega dílað við það þangað til vinnan byrjar að hleypa inn á einhverjar skrifstofur aftur í ágúst.

Ég veit samt ekki almennilega af hverju ég fer ekki bara í sjúkrafrí. Auðvaldið á ekkert inni hjá mér. Að fara í leyfi eyðileggur örugglega feril minn hjá fyrirtækinu í einhver ár, en ég hef engan áhuga að vinna hjá því í einhver ár hvort eð er. Á maður að fara í leyfi ef maður er nokkuð viss um að koma aldrei aftur úr því?

28. júní 2021

Arch and Point með Miguel er besta lagið.

Satt og sannað, klárt og kannað.