gthm

#Vinstrið sem vantar

2/12/2024

Fyrst kosningarnar eru búnar og allir aðrir hafa fengið að tjá sig er komið að mér að tala um hvað gerðist. Eins og margir er ég ekki nógu ánægður með niðurstöðuna. Mér leiddist hvað síðasta rikisstjórn var aðgerðalítil. Það er fullt af verkefnum sem þarf að ganga í, en hún samanstóð af þrem flokkum sem voru ekki sammála um neitt og komu engu í verk. Ég kaus því ekki þann flokk sem sannfæring mín vildi, heldur flokk sem ég get lifað við í þeirri von um að hann kæmist í tveggja flokka ríkisstjórn sem gæti gert eitthvað. Af því verður ekki, og það er ekki ljóst að næsta ríkistjórn verði eitthvað duglegri en sú síðasta. Á meðan versna bara vandamálin sem þarf í alvöru að gera eitthvað í.

Þrátt fyrir að vera óhamingjusamur vinstrimaður, og afsakið að ég endurtek mig svona því allir vinstrimenn eru óhamingjusamir, verð ég samt að vera ánægður með ríflega 80% kjörsókn. Það er langt frá því sjálfgefið að almenningur taki þetta hressilega þátt í kosningum, og það að við gerum það er merki um að fólk trúi almennt á lýðveldið okkar. Því ber að fagna. Í kringum okkur er fullt af löndum þar sem fólk er orðið mjög þreytt á borgaralegum stjórnmálum en það er greinilega ekki staðan hér. Það er auðvelt að gleyma að saga þátttöku almennings í vali á leiðtogum sínum hefst í raun ekki fyrr en í félagslegum byltingum í Evrópu um miðja 19. öld, fyrir minna en 200 árum. Þessi þátttaka, sem var sótt með góðu og illu, er eitt af mikilvægustu afrekum venjulegs fólks og er með dýrmætustu réttindum okkar. Ég er mjög glaður með að samlandar mínir taka þetta virkan þátt í kosningum okkar.

Fyrir mér eru stærstu fréttirnar úr kosningunum að Píratar og Vinstri Grænir eru báðir dottnir af þingi, og að kristnilegum fasistum var algjörlega hafnað af öllum nema því brotabroti af fólki sem á bágt á einhverja vegu og vill kenna öðrum um það. Það er rækin ástæða til að gleyma því fólki og þeirra flokki sem fyrst. Vindum okkur í það.

Ég var mjög hrifinn af Pírötum þegar þeir byrjuðu fyrst og hef kosið þá oftar en einu sinni. Þeir boðuðu aukið beint lýðræði og rökhyggju í ákvörðunartöku, sem voru bæði hlutir sem mér leist vel á fyrir fimmtán árum. Síðan þá hefur mér hætt að lítast jafn vel á báða. Í fyrsta lagi er vankantinn á beinu lýðræði að fáir í nútíma þjóðfélagi hafa tíma til þess. Maður þarf að vinna, skutla krökkum, rækta sambandið við konuna, elda mat, taka til, ryksuga, vaska upp, þvo þvott, stunda líkamsrækt, hitta vini svo maður dagi ekki uppi, sinna áhugamálum til að vera fúnkerandi manneskja, og allt. Það skilur lítinn tima eftir til að sökkva sér ofan í einhver hitamál og skeggræða þau. Eina fólkið sem hefur tíma til þess eru einhverjir furðufuglar sem búa einir og eiga engin börn eða vini, sem enda svo á að keyra allar ákvarðanir í beinu lýðræði. Þess vegna finnst mér í dag að fulltrúalýðveldi henti betur, þó auðvitað megi binda svo um hnútana að við höfum meira aðhald að fulltrúum okkar.

Ofan á það hef ég smátt og smátt hætt að vera jafn mikið fífl og ég var í framhalds- og háskóla, eða hef alla vega fundið mér nýjar og spennandi leiðir til að vera fífl. Ég hef lært að rökhyggja og hugsun skiptir ekki endilega lykilmáli í samskiptum við annað fólk, alveg sama hversu þægilegt það væri fyrir mig því ég er sæmilega góður í báðum. Teknókratar hafa alveg fengið að stjórna þjóðfélögum, eins og científicos í Mexíkó eða Chicagostrákarnir í Chile, og það hefur ekki endað vel. Mér finnst frekar að síðustu tíu ár hafi sýnt að það þarf að nálgast stjórnmál með því að hafa einhverjar grundvallarhugsjónir sér að leiðarljósi og láta þær stýra áherslum sínum. Ritstýrðar greinar og súlurit eru kannski fín verkfæri til að grípa í þegar kemur að framkvæmdum, en alveg ónýt til að segja manni hvað ætti að gera.

Mér finnst að Píratar hafi ekki þróast með breyttum tímum. Þeir voru fastir í hugsunarhætti sem blífar ekki, og þeir eru horfnir.

Örlög Vinstri Grænna græt ég aðeins af því mér finnst þau hefðu mega koma miklu fyrr. Ég hef aldrei þolað Vinstri Græna og í mjög langan tíma vissi ég ekki nákvæmlega af hverju. Loksins fattaði ég að það er af því að þeir eru íhaldssamur vinstri flokkur, sem er fyrirbæri sem ég hafði lengi vel haldið að væri einfaldlega ekki til. Vinstri Grænir styðja hefðbundnar vinstrisinnaðar hugmyndir, eins og jafnrétti allra og jöfn tækifæri, sem og ábyrga umhverfisstefnu, en aðeins með þeim fyrirvara að það megi ekki breyta nokkrum hlut í þjóðfélaginu til að vinna að þessum markmiðum. Augljóslega munu Vinstri Grænir því aðeins styðja við aðra íhaldsflokka, eins og vini sína í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkunum. Ég dansa á gröf þeirra og vona að þau rísi aldrei upp aftur.

Hvað vil ég þá að gerist fyrst ég er svona óhamingjusamur með útkomu þessara kosninga og óska öllum vinstriflokkum hins versta? Ég vil að íslenska vinstrið taki sig saman á næstu fjórum árum og skipuleggi alvöru raunhæfan valkost fyrir okkur sem vilja kjósa vinstri flokk. Ég vil fá að kjósa flokk sem leggur jafnrétti allra í landinu á oddinn, og vill gera eitthvað af alvöru til að sporna við hlýnun jarðar svo að börnin mín þurfi ekki að lifa eftir fallið. Ég vil kjósa flokk sem setur fram raunhæfar hugmyndir um hvernig megi endurfjármagna heilbrigðis- og skólakerfin, til dæmis með því að leggja mun hærri skatta á dánarbú, fjármagnstekjur og stór fyrirtæki. Ég vil kjósa flokk sem skilur að lýðveldið er mikilvægt, og veit að það þarf að fordæma skilyrðislaust stríðsrekstur, hvort sem hann á sér stað á Gaza eða í Úkraínu. Ég vil kjósa flokk sem hefur einhverja andskotans framtíðarsýn.