gthm

#Næstsíðasta líf Jens Ólafssonar Olsen

4/1/2025

Eina jólabókaflóðsbókin sem ég hef enn lesið í ár er þessi nýja bók Braga Páls. Ég las Kjöt eftir hann í fyrra og var því mjög spenntur fyrir þessari, því Kjöt er með ógeðslegri bókum sem ég hef lesið. Sem miðaldra maður með lítil börn finn ég nær engar tilfinningar lengur, svo mér finnst gaman þegar bók lætur mig fá svo mikla klígju að ég get ekki lesið hana lengur.

Næstsíðasta líf er ekki jafn ógeðsleg og Kjöt en á engu að síður frábæra spretti. Jens aðalpersóna er vel skissaður og trúanlegur, og ég hló oftar en einu sinni upphátt að lýsingunum af því sem hann og hin stóra persónan taka sér fyrir hendur. Það er ákveðin áskorun að útskýra fyrir fimm ára barni nákvæmlega hvað sé svona fyndið á hátt sem Barnaverndarnefnd þætti ásættanlegur.

Ef ég ætti að kvarta yfir einhverju væri það að Næstsíðasta líf er frekar norræn bók, á þann hátt að hún gerist nær öll inni í hausnum á persónunum. Það eitthvað um að fólk tali saman, og ein góð sena þar sem Jens og önnur persóna eiga samtal þar sem annað þeirra er ekki bara samtalsviðtakandi fyrir hitt, sem er vissulega framför, en persónur gera aldrei neitt saman. Svona innanhússnaflaskoðun er samt viðloðandi allar norrænar skáldsögur, og franskar líka, og í fyrra leiddist mér svakalega yfir einhverjum slíkum minni Booker verðlaunahesti, svo það er varla hægt að leggja þetta alfarið að fótum Braga Páls.